Um leikskólastarfið

Dagskipulag Barnaborgar skal skapa rútínu þar sem matartímar, hvíld, bleiuskipti, salernisferðir, samverustundir og frjáls leikur barnanna hafa sinn tíma.

Hlutverk starfsfólks er að leiðbeina börnunum í samskiptum þeirra og gæta þess að þau takist á við fjölbreytt, þroskandi og áhugaverð viðfangsefni. Hlustað er á börnin og þeim gefin tækifæri til að tjá skoðanir og langanir sínar til móts við það að kennari bjóði uppá ákveðin viðfangsefni. Starfsmenn taka þátt í leikjum barnanna með það að markmiði að örva leikinn og fleyta honum áfram, taka undir hugmyndir barnanna og auðga þær þegar við á, án þess að taka völdin í leiknum. 

Við leggjum mikla áherslu á frjálsan leik þar sem við teljum hann vera hið eðlilega tjáningarform barnsins og mikilvægustu náms- og þroskaleið þess. Börnin velja sér  viðfangsefni og ganga frá að leik loknum. Einu sinni til tvisvar á dag er farið út að leika. Útivera er mikilvægur þáttur í uppeldistarfi leikskólans, þar sem grófhreyfingum og leik barnanna er gert hátt undir höfði. Einnig förum við í gönguferðir hér í nánasta umhverfi okkar. 

Í samverustund gefast börnum og starfsfólki tækifæri til að eiga saman notalega stund. Þá er lesið, sungið, hlustað á sögur og farið í margs konar leiki. 

Börnin fá að kanna og skapa úr margvíslegum efnivið. Tónlist skipar veglegan sess í leikskólastarfinu. Börnin syngja á hverjum degi, hlusta á tónlist, heyra þulur og rímur, upplifa hrynjanda, rím og hvernig tal og tónar fléttast saman. Pétur Ingólfsson tónlistarkennari sinnir tónlistartímum einu sinni í viku.

Næring og hvíld 

Morgunmatur byrjar kl 8:30 og er til kl 9:00. Hádegismatur er frá kl. 11:30 - 12:00. Nónhressing er kl. 14:30. Yngstu börnin borða niðri í leikskóla, eldri börnin fara upp í sameiginlegan borðsal Þingeyjarskóla. Við hvetum börnin til að smakka allan mat og leggjum áherslu á að ræða um matinn á jákvæðan hátt.

Eftir hádegismatinn fara öll börn í hvíld. Yngri börnin sofa í vangi eða inni í hvíldarherbergi. Við liggjum á dýnum og höfum það notalegt og hlustum á sögur eða tónlist í um það bil 30 - 45 mínútur.