Samstarf við foreldra

Aðlögun

Þegar barn byrjar í leikskóla er það stór stund í lífi þess og foreldranna. Allt er framandi og ókunnugt og því er mikilvægt að vel sé staðið að aðlögun í upphafi. Aðlögun er sá tími þegar barn kynnist kennurum, öðrum börnum og húsakynnum skólans. Aðlögun er ekki einungis ætluð fyrir börnin heldur einnig sem tími fyrir foreldra og kennara til að kynnast og virða fyrir sér uppeldisaðferðir heima og í skólanum.  Aðlögun tekur oftast 5-8 daga, en börnunum er gefinn lengri tími ef þörf krefur. Deildarstjórar ákvarða fyrirkomulag aðlögunar hverju sinni. Börnin geta komið með einn lítinn hlut með sér í leikskólann ef þörf er á. Þetta er ekki hugsað sem leikfang fyrir daginn heldur til að auðvelda börnunum að kveðja foreldra sína. 

Nánar um þátttökuaðlögun

Klæðnaður barnanna og forstofa leikskólans

Klæðnaður barna þarf alltaf að vera í samræmi við veðurfar og nauðsynlegt er að hafa aukafatnað og þann hlífðarfatnað til útiveru sem barnið hugsanlega þarf að nota hverju sinni. Mikilvægt er að merkja föt barnanna því þannig komast þau best til skila.  Gott er að hafa í huga að skólinn er vinnustaður barnanna og því er betra að hafa þau í fötum sem mega verða fyrir hnjaski. Foreldrar eru vinsamlega beðnir að taka til að morgni þau föt sem áætluð eru þann daginn því það auðveldar börnunum að taka til þau föt sem þau fara í út og þannig geta þau betur klætt sig sjálf. Munið að taka blaut eða skítug föt með heim í dagslok og setja skó í skógrindur. Hvert barn fær merktan kassa fyrir ofan sitt hólf, til að geyma í aukaföt. Síðasta virka dag barnsins í leikskóla í viku hverri, er nauðsynlegt að tæma bæði hólf og skógrindur svo hægt sé að þrífa vel forstofur skólans.

Móttaka og brottför

Við leggjum áherslu á að taka vel á móti hverju barni þegar það kemur í leikskólann. Við gætum jafnframt að því að öll börnin fái jafnmikla athygli. Við vöndum orðfærið, gefum til kynna að það sé gott og gaman að hitta barnið og sýnum áhuga á því sem barnið hefur frá að segja að heiman..

Í lok dags hafa börnin tækifæri til að geyma hálfkláruð verkefni, t.d. myndir, eða taka þau með sér heim. Við hvetjum foreldra til að koma inn í leikskólann og sýna barni sínu og því sem það er að gera áhuga. Jafnframt bendum við börnum á að í lok dags er ekki víst að þau nái að klára ný verkefni og það sé kurteisi að taka vel á móti þeim sem kemur og sækir. Liður í agastefnunni um jákvæðan aga felst í því að börnin séu þátttakendur í skólastarfinu. Við ræðum við börnin um hvað við þurfum að hjálpast að með í skólanum og þau sinna ákveðnum hlutverkum til þess. Þetta gefur komu barnanna og veru í leikskólanum tilgang og aðstoðar þau við að sjá af foreldrum sínum í upphafi dags. Dagleg samskipti við foreldra eru mikilvæg, við leggjum okkur fram við að taka vel á móti foreldrum þegar þeir koma inn með sínu barni. Þannig eflum við tengsl leikskólans við foreldra og fáum og veitum upplýsingar um barnið.

Veikindi

Leikskólinn er ætlaður frískum börnum. Veikist barn skal það dvelja heima þar til það hefur verið hitalaust í a.m.k. 1-2 sólarhringa. Hafa skal í huga að hiti er ekki eina merki veikinda. Ef barni virðist líða illa er ástæða til að meta hvort það sé nógu frískt til að takast á við daginn utan eigin heimilis. Ef um langvarandi eða síendurtekin veikindi er að ræða þar sem barn missir mjög mikið úr leikskólanum reynum við að koma til móts við barnið hvað varðar inniveru eftir þau veikindi svo framarlega sem aðstæður í skólanum leyfi slíkt. Sjálfsagt er að barnið fari síðast út og komi fyrst inn, þannig að útiveran er mjög stutt fyrstu dagana eftir veikindi. 

Fjarvistir

Nauðsynlegt er að tilkynna leikskólanum breytta hagi og aðstæður barnanna s.s. veikindi, fjarveru foreldra og breytta hjúskaparstöðu. Óski foreldrar eftir að barn taki frí í leikskólanum, utan sumarleyfis, er það heimilt, en vistgjaldi barnsins verður ekki breytt. 

Læknisvottorð

Ef barn er með mataróþol eða ofnæmi verða foreldrar að skila læknisvottorði sem staðfestir hvaða fæðutegundir barnið má ekki borða. Mikilvægt er að allar upplýsingar berist til leikskólans um alvarleika mataróþols eða ofnæmis svo hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir. Deildarstjórar taka við vottorðum, upplýsingum um breytingar varðandi mataræði barns og fyrirspurnum varðandi matinn í leikskólanum. 

Óhöpp og slys/tryggingar

Í barnahópi geta alltaf orðið óhöpp eða slys. Ef slíkt kemur fyrir er strax haft samband við foreldra sem fara þá með barnið á slysadeild ef þörf er á því. Slys eru skráð á stöðluð blöð, með því er hægt að fylgjast betur með því hvort slysagildrur leynist í leikskólanum. Eins upplýsum við foreldrana ef eitthvað minniháttar óhapp á sér stað. Öll börn eru tryggð á meðan þau dvelja í leikskólanum.