03.12.2025
Það er ánægjulegt að segja frá því að merki Þingeyjarskóla er komið upp og prýðir leikskólainngang Barnaborgar.
Eins og sagt var frá á skólaslitum Þingeyjarskóla síðast liðið vor var ákveðið að nota hluta af listaverki eftir nemanda skólans í merki skólans. Listamaðurinn Gerður Fold Arnardóttir var nemandi skólans og er foreldrum hennar þakkað fyrir að mega nota listaverkið í þessum tilgangi.
Kristrún Ýr Óskarsdóttir sjónlistakennari vann merkið út frá listaverkinu.
Merkið er fallegur minnisvarði um Gerði Fold sem lést 1. nóv. 2023.
Merkið minnir okkur á að sér hver nemandi skólans, sérhvert barn skiptir miklu máli og hversu mikilvægt það er að hæfileikar hvers nemanda fái notið sín í skólanum. Með sínum náttúrulegu formum og litum minnir merkið okkur einnig á náttúruna og hversu dýrmæt tengslin við hana eru fyrir skólastarf Þingeyjarskóla.
Það var löngu tímabært að koma upp merki Þingeyjarskóla ásamt einkennisorðum skólans sem eru: Ábyrgð, virðing og gleði.
03.12.2025
Þann 23. september barst Þingeyjarskóla fyrirspurn frá Sigurlínu Tryggvadóttur, verkefnastjóra Huldu náttúruhugvísindaseturs, um mögulegt samstarf við umhverfisverkefni sem Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Þingeyjarsveit stendur fyrir. Verkefnið tengist dvöl listamannsins Hrafnkels Sigurðssonar í Mývatnssveit dagana 14.–20. nóvember, þar sem hann vann að listaverki sem er hluti af sýningunni Creative Responses í Listasafni Akureyrar. Hrafnkell dvaldi í listamanna¬bústað á Skútustöðum og vann þar að skúlptúr úr efni sem hann safnaði úr nærumhverfinu. Í tengslum við dvölina óskaði hann eftir að tengjast samfélaginu og varð samstarf við Þingeyjarskóla til í kjölfarið.
21.11.2025
Haustgleði Þingeyjarskóla heppnaðist afar vel.
Fjölmennt var á Haustgleði skólans þar sem nemendur settu upp leikritið Kardemommubærinn eftir Thorbjörn Egner. Nemendur stóðu sig afar vel og gaman að sjá hversu öflugan hóp við höfum á að skipa þegar kemur að slíkum viðburðum sem þessar stóru hátíðir okkar eru. Miklu er til tjaldað á þessum hátíðum okkar og ófáir sem leggja til hönd við uppsetninguna. Er öllum þessum ágætu aðilum þakkað fyrir þeirra framlag. Jafnframt leiksýningunni var sýning á listaverkum nemenda í tengslum við málverk í eigu skólans eftir listamanninn Hring Jóhannesson.
Hér á síðunni getur að líta nokkrar myndir úr leiksýningunni og listaverkasýningunni.
17.11.2025
Nemendur og starfsfólk eru á fullu að undirbúa sýninguna á Kardemommubænum. Að mörgu er að hyggja og mikill metnaður í að koma leikmynd upp, ljósum og hljóði.
Sýningin hefst kl. 18:00 fimmtudaginn 20.11.2025.
Við lofum magnaðri sýningu.
14.11.2025
Nemendur 9. og 10. bekkja munu selja friðarkerti á Haustgleði skólans. Stefnan er sett á Marimbaferð til Danmerkur og Svíþjóðar í vor og er þetta einn liðurinn í því að fjármagna ferðina.
14.11.2025
Það var gaman að sjá hve margir mættu í grænum fötum á mánudaginn en þá ræddum við um eineltishringinn og verndarann sem er grænn á litinn. Allir nemendur skólans stimpluðu handafar á sameiginlegt veggteppi sem hangir nú í setustofu skólans.
Í þessari viku byrjuðum við á þemaverkefni um bíla. Við erum að lesa bókina "Komdu og skoðaðu bílinn" og hafa krakkarnir unnið margvísleg verkefni í tengslum við bíla.
1. bekkur fékk innlögn á stöfunum Úú og Nn.
Í dag, föstudag, var STÁSS tími í umsjón yngsta stigs. Nemendur kynntu þar verkefnið sitt sem heitir "Bílaverksmiðjan" og sýndu þau bílana sem þau hönnuðu sjálf. Krakkarnir stóðu sig mjög vel og var gaman að sjá þau koma fram og sýna afrakstur vinnu sinnar.
Haustgleði undirbúningur er nú í fullum gangi og ganga æfingar vel. Nemendur í 3.- 4. bekk fóru yfir í Ýdali í dag á sína fyrstu æfingu og gekk það mjög vel.
11.11.2025
Haustgleði Þingeyjarskóla verður haldin fimmtudaginn 20.11.2025 og hefst skemmtunin kl. 18:00.
Unglingastigið ásamt nemendum úr 3. - 4. bekk setja upp leikritið Kardemommubærinn.
Miðaverð 2000 krónur fyrir fullorðna.
500 krónur fyrir börn á grunnskólaaldri.
Frítt fyrir leikskólabörn og grunnskólanemendur Þingeyjarsveitar.
Sjoppa á staðnum en athugið að enginn posi er til staðar.
Ball eftir sýningu.
Öll velkomin.
Nemendur og starfsfólk Þingeyjarskóla
05.11.2025
Nemendur á miðstigi hafa undanfarið unnið spennandi verkefni um galdrafárið á Íslandi á 17. öld. Þar kynntu þau sér tímabil þar sem fólk óttaðist galdra og margir voru sakaðir um að nota rúnir og galdrastafi til að hafa áhrif á aðra.
Þau hafa legið yfir heimasíðu Galdrasýningarinnar á Ströndum og skoðað þar rúnir, galdrastafi og sögur af fólki sem sakað var um galdra.
Einnig hafa þau velt fyrir sér hvernig samfélagið var á þessum tíma – hvernig ótti, trú og fáfræði höfðu áhrif á líf fólks og ákvarðanir þess.
Á ganginum fyrir framan stofuna hafa nemendur sett upp tímalínu yfir allar galdrabrennurnar sem áttu sér stað á Íslandi á 17. öld.
Verkefnið hefur vakið mikinn áhuga og nemendur verið forvitnir, gagnrýnir og skapandi í vinnu sinni.
Við hvetjum alla sem eiga leið í skólann til að labba inn ganginn og skoða tímalínuna á ganginum – þar er margt áhugavert að sjá!
28.10.2025
Fréttir af miðstigi
Undanfarnar vikur hafa nemendur á miðstigi unnið hörðum höndum í verkefnavinnu í tengslum við bókina Benjamín dúfu. Nemendur útbjuggu fallega veggmynd af hverfinu og persónum í sögunni sem prýðir stofu nr 6. Einnig eru kynningar á persónum sögunnar sem og munir riddaranna í Rauðu reglunni. Þar að auki var útbúið fréttabréf með allskonar fréttum sem tengjast sögunni. Nemendur sömdu nýjan endi á söguna því sumum fannst endirinn of sorglegur. Nemendur eiga hrós skilið fyrir þessa vinnu. Á fimmtudaginn 23. október var STÁSS tími í umsjón miðstigs þar sem nemendur kynntu afrakstur verkefnisins. Í lok Stásstímans var Húsbandið með söngstund.