Fréttir

Samstarf milli skólastiga - styrkur samrekinna leik- og grunnskóla

Fréttir frá unglingastigi

Í þessari viku hefur ýmislegt verið um að vera. Fyrst má nefna framhaldsskóla heimsókn 9. og 10. bekkjar til Akureyrar. Við heimsóttum MA, VMA og heimavistina. Vel var tekið á móti okkur á öllum þessum stöðum og fengu nemendur gríðarlega mikið af upplýsingum sem vakið hafa þau til umhugsunar um hvað þau ætli sér að gera þegar grunnskólagöngu þeirra lýkur. Nemendur fengu svar frá sveitarstjóra við bréfi sem þau sendu frá sér í síðustu viku um framgang mála við salernis- og fatahengismál þeirra. Sveitarstjóri þakkaði fyrir bréfið og hrósaði þeim fyrir áhuga þeirra á vinnuumhverfi sínu. Sagði jafnframt að málið yrði tekið fyrir á næsta sveitarstjórnarfundi þann 9. október. Í dag, föstudag, kynntu nemendur barnabókina sína Geiminn fyrir öllum skólanum og gekk kynningin mjög vel.

Listaverk nemenda prýða skólann okkar

Nemendur hafa lagt mikla vinnu í fjölbreytt listaverk á síðustu vikum og afraksturinn gleður augað. Listaverkin prýða nú veggi skólans og gera umhverfið hlýlegra, litríkara og nærandi fyrir okkur öll.

Stáss tími dagsins

Samstund - STÁSS tími Reglulega yfir veturinn er frátekinn tími sem notaður er sem samverustund þar sem allir nemendur skólans koma saman. Tímann má m.a. nota til að vera með söngstund eða aðrar uppákomur eins og að kynna áhugaverð verkefni.

Heimsókn frá Eistlandi

Þingeyjarskóli hafði afar skemmtilega heimsókn nú í vikunni. Ilona Laido fyrrverandi kennari við tónlistardeildina okkar kom í heimsókn ásamt þremur kollegum sínum. Þetta var hluti af Erasmusverkefni sem þær taka þátt í. Markmiðið var að kynnast fyrirkomulagi tónlistarkennslu í skólanum okkar og fá að fylgja kennurum eftir við störf. Ilona og félagar dvöldu í fjóra daga hjá okkur og enduðu veru sína hjá okkur með þátttöku í STÁSS tíma þar sem þær sungu fyrir okkur lag á eistnesku. Það var afskaplega gaman að fá Ilonu til okkar í heimsókn.

Haustfundur Þingeyjarskóla

Haustfundur Þingeyjarskóla Miðvikudaginn 24. september 2025 Kl. 16:30 í borðsal Þingeyjarskóla. Kæru foreldrar og forráðamenn, Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin á haustfund Þingeyjarskóla þar sem farið verður yfir mikilvæg málefni skólastarfsins og gefst tækifæri til að hitta starfsfólk og aðra foreldra, spyrja spurninga og eiga gott samtal um skólasamfélagið okkar. .......

Góð heimsókn í Þingeyjarskóla - ADHD fræðsla

Miðvikudaginn 17.09.2025 fengum við góða heimsókn í Þingeyjarskóla. Jóna Kristín Gunnarsdóttir verkefnastjóri fræðslumála hjá ADHD samtökunum kom til okkar og hélt fræðsluerindi fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra. Þetta voru aldeilis góðir fyrirlestrar sem Jóna var með og nemendur, starfsfólk og foreldrar meira meðvitaðri um ADHD. Jóna Kristín var með fjóra fyrirlestra; fyrir miðstigið, unglingastigið, starfsfólk og að lokum fyrir foreldra. Jónu er þökkuð koman.

Þingskóladagurinn

Þingskóladagurinn eða hringekjudagurinn. Í dag komu saman nemendur og starfsfólk allra skólanna í Þingeyjarsveit. Yngsta stigið okkar eða 1. – 4. bekkur kom saman í Þingeyjarskóla, miðstigið eða 5. – 7. bekkur kom saman í Reykjahlíðarskóla og unglingastigið hittist í Stórutjarnaskóla. Ýmsar stöðvar voru settar upp og margt brallað. Nemendur skemmtu sér vel og tókst dagurinn vel og almenn ánægja í hópnum.

Staða framkvæmda við Þingeyjarskóla

Því miður hefur dregist mjög að ljúka framkvæmdum við snyrtingar og fatahengi nemenda sem og búningsaðstöðu í Ýdölum. Þetta er bagalegt en nemendur og starfsfólk hafa til þessa tekið þessu með jafnaðargeði þó þetta sé óneitanlega óheppilegt, komið þetta langt inn í starfsár nemenda.

Haustgleði Þingeyjarskóla 20.11.2025

Ákveðið hefur verið að flýta Haustgleði Þingeyjarskóla frá 27.11 til fimmtudagsins 20.11. Ástæða þess er tvíþætt. Annars vegar það á sama tíma skv. skóladagatali er árshátíð Reykjahlíðarskóla þ.e. 27.11 og hins vegar það að komið er ansi nærri jólum og þema þeirra á þessum tíma.