Félagslíf

Nemendaráð skipuleggur í samráði við félagsmálafulltrúa starf félagsmiðstöðvarinnar ,,Skjálfanda” sem staðsett er í félagsheimilinu Ýdölum. Starfið er ætlað nemendum 7.-10. bekkja og fer að jafnaði fram einu sinni í viku. Metnaður er lagður í faglega og skemmtilega dagskrá sem byggir á fjölbreyttum áhuga og hæfileikum nemenda. Nemendaráð er skipað fulltrúum nemenda úr 7.-10. bekk en veturinn 2020-2021 fer fram tilraunaverkefni þar sem allir nemendur unglingadeildar fá tækifæri til þess að sitja í nemendaráði, skipuleggja viðburði og axla ábyrgð á félagsstarfi samnemenda sinna. 
Einu sinni í mánuði býður félagsmiðstöðin upp á starf fyrir 4.-6. bekk sem skipulagt er af félagsmálafulltrúa í samráði við nemendur og í upphafi skólaárs fá foreldrar 1.-3. bekkjar senda dagskrá yfir mánaðarlega félagsmiðstöð barna sinna. 
Aðstaðan býður upp á fjölbreytta viðburði en mögulegt er að fá að nýta annað húsnæði á svæðinu, svo sem skóla og íþróttaaðstöðu. Reglulegt hópastarf og námskeið eru í boði þar sem sérstök áhersla er á áhugasvið þeirra sem ekki finna sig í öðru reglubundnu íþrótta- og tómstundastarfi á svæðinu. 
Fagleg ábyrgð á frístundastarfi félagsmiðstöðvar er hjá félagsmálafulltrúa en auk hans eru þrír  starfsmenn. Félagsmiðstöðin ,,Skjálfandi” sækist eftir því að taka þátt í samstarfi við aðrar félagsmiðstöðvar, starfi samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi (SAMFÉS), vinnur eftir faglegri hugsjón Frítímans og notast við fjölgreindakenningar Gardners.