Það er ánægjulegt að segja frá því að merki Þingeyjarskóla er komið upp og prýðir leikskólainngang Barnaborgar.
Eins og sagt var frá á skólaslitum Þingeyjarskóla síðast liðið vor var ákveðið að nota hluta af listaverki eftir nemanda skólans í merki skólans. Listamaðurinn Gerður Fold Arnardóttir var nemandi skólans og er foreldrum hennar þakkað fyrir að mega nota listaverkið í þessum tilgangi.
Kristrún Ýr Óskarsdóttir sjónlistakennari vann merkið út frá listaverkinu.
Merkið er fallegur minnisvarði um Gerði Fold sem lést 1. nóv. 2023.
Merkið minnir okkur á að sér hver nemandi skólans, sérhvert barn skiptir miklu máli og hversu mikilvægt það er að hæfileikar hvers nemanda fái notið sín í skólanum. Með sínum náttúrulegu formum og litum minnir merkið okkur einnig á náttúruna og hversu dýrmæt tengslin við hana eru fyrir skólastarf Þingeyjarskóla.
Það var löngu tímabært að koma upp merki Þingeyjarskóla ásamt einkennisorðum skólans sem eru: Ábyrgð, virðing og gleði.
Þann 23. september barst Þingeyjarskóla fyrirspurn frá Sigurlínu Tryggvadóttur, verkefnastjóra Huldu náttúruhugvísindaseturs, um mögulegt samstarf við umhverfisverkefni sem Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Þingeyjarsveit stendur fyrir. Verkefnið tengist dvöl listamannsins Hrafnkels Sigurðssonar í Mývatnssveit dagana 14.–20. nóvember, þar sem hann vann að listaverki sem er hluti af sýningunni Creative Responses í Listasafni Akureyrar. Hrafnkell dvaldi í listamanna¬bústað á Skútustöðum og vann þar að skúlptúr úr efni sem hann safnaði úr nærumhverfinu. Í tengslum við dvölina óskaði hann eftir að tengjast samfélaginu og varð samstarf við Þingeyjarskóla til í kjölfarið.
Haustgleði Þingeyjarskóla heppnaðist afar vel.
Fjölmennt var á Haustgleði skólans þar sem nemendur settu upp leikritið Kardemommubærinn eftir Thorbjörn Egner. Nemendur stóðu sig afar vel og gaman að sjá hversu öflugan hóp við höfum á að skipa þegar kemur að slíkum viðburðum sem þessar stóru hátíðir okkar eru. Miklu er til tjaldað á þessum hátíðum okkar og ófáir sem leggja til hönd við uppsetninguna. Er öllum þessum ágætu aðilum þakkað fyrir þeirra framlag. Jafnframt leiksýningunni var sýning á listaverkum nemenda í tengslum við málverk í eigu skólans eftir listamanninn Hring Jóhannesson.
Hér á síðunni getur að líta nokkrar myndir úr leiksýningunni og listaverkasýningunni.
Nemendur og starfsfólk eru á fullu að undirbúa sýninguna á Kardemommubænum. Að mörgu er að hyggja og mikill metnaður í að koma leikmynd upp, ljósum og hljóði.
Sýningin hefst kl. 18:00 fimmtudaginn 20.11.2025.
Við lofum magnaðri sýningu.