Barnaborg

Í maí árið 1999 tók Leikskólinn Barnaborg í Aðaldal á móti nemendum í nýju húsnæði, sem þá hafði heimilisfangið Iðjugerði 2.

Í ágúst 2019 flutti Barnaborg starfsemi sína í suðurenda Þingeyjarskóla. Þá var útbúin glæsilega aðstaða fyrir leikskólann þar sem áður voru búningsklefar og gufubað grunnskólans. Vistarverur barnanna eru með stóra glugga til suðurs þar sem börnin sjá út á leiksvæðið og landslagið í kringum skólann. Þar sem eitt sinn var sundlaug er nú útisvæði Barnaborgar. 

Bjarni Reykjalín teiknaði húsnæðið í góðri samvinnu við leikskólastarfsfólk. Forstofan er rúmgóð og inn af henni er torg sem er móttökustaður leikskólans. Barnaborg er skipt í svæði eftir litum á gólfi. Á gula svæði hafa yngstu nemendur leikskólans sína aðstöðu. Gula svæði samanstendur af stóru gulu stofu, litlu gulu stofu sem er einstaklega notalegt hvíldarherbergi og gula baði. Á gula baði er góð skiptiaðstaða, lítil og stórt salerni og vaskar í barna og fullorðinna. Á græna svæði hafa eldri nemendur aðstöðu sína, þar er græna stofa og innri stofan nefnist græni krókur. Á græna baðherbergi eru 2 salerni og vaskar í hæð barna og fullorðinna. 

Innan við leikskólahúsnæðið eru verkgreinastofur grunnskólans. Leikskólabörnin ganga gegnum þær upp í matsal sem er sameiginlegur með grunnskólanum.