Foreldrafélag

Samkvæmt 9. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 skal starfa foreldrafélag við grunnskóla. Skólastjóri er ábyrgur fyrir stofnun þess og sér til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum. Hlutverk foreldrafélags er að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla. Foreldrafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð.   

Markmið félagsins er að vera samstarfsvettvangur foreldra og starfsfólks í skólanum auk þess að styðja heimili og skóla við að skapa nemendum góð uppeldis- og menntunarskilyrði. Félaginu er ætlað að koma á framfæri sjónarmiðum foreldra varðandi skóla- og uppeldismál ásamt því að stand vörð um réttindi nemendanna til aukins þroska og menntunar. 

 

Lög foreldrafélags Þingeyjarskóla 

 

1 gr. Félagið heitir Foreldrafélag grunnskóladeildar Þingeyjarskóla og heimilisfang þess er Kjarni, 650 Laugum. Félagar teljast allir forráðamenn grunnskólanemenda.  

2 gr. Markmið félagsins er að: 

 • Vera samstarfsvettvangur foreldra sem eiga börn í grunnskólanum þar sem samskipti eru gagnvirk, gagnsæ og á jafnréttisgrundvelli  

 • Efla og tryggja gott samstarf foreldra og starfsfólk skólans  

 • Styðja heimili og skóla við að skapa nemendum góð uppeldis- og menntaskilyrði  

3 gr. Tilgangi sínum hyggst félagið ná m.a. með því að:  

 • Skipuleggja og halda utan um starf bekkjafulltrúa í hverjum bekk/umsjónahópi  

 • Koma á umræðum- og fræðslufundum um uppeldis- og skólamál  

 • Veita skólayfirvöldum lið svo að aðstæður til námsog félagslegra starfa verði sem bestar  

 • Styðja og efla hverja þá starfsemi, sem stuðlar að auknum þroska og menningu skólans  

 • Taka þátt í samstarfi við önnur foreldrafélög, svæðaráð og landssamtök foreldra  

4. gr. Stjórn foreldrafélagsins er skipuð fimm einstaklingum. Tryggt skal að fulltrúar komi af öllum stigunum þremur, þ.e. í það minnsta 1 af yngsta stigi, 1 af miðstigi og 1 af unglingastigi. 

Stjórn foreldrafélagsins skal kjörin á aðalfundi félagsins til tveggja ára í senn en helmingur stjórnarmanna skal skipt út árlega á aðalfundi. Stjórn foreldrafélagsins skiptir með sér verkum  

5 gr. Bekkja/stigsfulltrúar starfa á vegum foreldrafélagsins sem setur þeim starfsreglur. Bekkja/stigsfulltrúar mynda fulltrúaráð foreldrafélagsins. Hlutverk bekkja/stigsfulltrúa er að efla og styrkja samstarf foreldra og barna og leitast við að treysta samband heimilis og skóla innan hvers árgangs/námshóps með nánu samstarfi við umsjónarkennara. Stjórn foreldrafélagsins ber ábyrgð á að í upphafi skólaárs séu kosnir tveir til þrír fulltrúar forráðamanna af hverju stigi 

6 gr. Aðalfundur skal haldinn í september ár hvert. Stjórn foreldrafélagsins boðar til fundar í samstarfi við skólann  með minnst viku fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Í fundarboði skal kynna efni fundarins. Verkefni aðalfundar:  

 • Kosning fundarstjóra og fundaritara  

 • Skýrsla stjórnar  

 • Skýrslur nefnda  

 • Lagabreytingar  

 • Reikningar lagðir fram til samþykktar  

 • Kosning stjórnarmanna  

 • Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga  

 • Kosning tveggja fulltrúa í skólaráð  

 • Önnur mál  

7.grein (skólaráð).  Á aðalfundi félagsins skal kjósa tvo fulltrúa í skólaráð eins og kveðið er á um í 9.gr. laga nr. 91/2008.  Vegna kosningu í skólaráð er farið eftir eftirfarandi starfsreglum. 

a) Stjórn foreldrarfélagsins auglýsir eftir tilnefningum  úr hópi foreldra í skólaráð. Tryggja skal að öllum foreldrum berist slík auglýsing.  Auglýsinguna skal senda með Mentor pósti á alla foreldra og birta á heimasíðu skólans. Í auglýsingunni er hlutverk skólaráðs kynnt og að fulltrúar séu kosnir til tveggja ára í senn.  Tilnefningum skal skilað til formanns foreldrafélagsins. 

b)Annar fulltrúi foreldra í skólaráði skal vera úr röðum stjórnarmanna foreldrafélagsins. 

c)Ef enginn gefur kost á sér leitar stjórn foreldrafélagsins eftir foreldrum til að gefa kost á sér. 

d) Auglýsa skal eftir framboði foreldra í skólaráð í síðasta lagi viku fyrir aðalfund foreldrafélagsins. 

e) Allir forráðamenn barna í Þingeyjarskóla eru kjörgengir nema þeir séu kennarar eða starfsfólk skólans eða sitji sem kjörnir fulltrúar í fræðslunefnd Þingeyjarsveitar. 

f) Kosið er í skólaráð á aðalfundi foreldrafélagsins. 

g) Þegar kosið er í fyrsta sinn í skólaráð er annar fulltrúi foreldra kosinn til eins árs og hinn til tveggja ára. Varamenn skal kjósa í samræmi við það.  Með þessu móti er komið í veg fyrir að báðir fulltrúar foreldra fari úr skólaráðinu á sama tíma. 

h) Að öllu jöfnu skal miða við að fulltrúi foreldra sitji ekki lengur en fjögur ár samfellt í skólaráði. 

8. gr. Stjórn foreldrafélagsins getur skipað nefndir um afmörkuð verkefni  

9. gr. Stjórn foreldrafélags skal koma saman eigi sjaldnar en tvisvar á skólaönn og oftar ef þurfa þykir. Formaður foreldrafélags undirbýr og boðar til þessa fundar. Þar skulu rædd mál er varða markmið og starf foreldrafélagsins, starf foreldra í bekkjardeildum og verkefni skólaráðs.  

10. gr. Stjórn foreldrafélagsins skal ekki sinna klögumálum eða hafa afskipti af vandamálum er upp kunna að koma á milli einstakra foreldra og starfsmanna skólans.  

11. gr. Ákvörðun um slit félagsins verður tekið með einföldum meirihluta á aðalfundi og renna þá eignir þess til skólans. 

12. gr Lög þessi öðlast þegar gildi.  Tillögur um lagabreytingar skulu tilkynntar í aðalfundarboði og lagðar fram skriflega á aðalfundi.  Lögum þessum má breyta með einföldum meirihluta atkvæða á aðalfundi. 

 Þingeyjarskóli, apríl 2016