Nemendur 9. og 10. bekkja munu selja friðarkerti á Haustgleði skólans. Stefnan er sett á Marimbaferð til Danmerkur og Svíþjóðar í vor og er þetta einn liðurinn í því að fjármagna ferðina.
Það var gaman að sjá hve margir mættu í grænum fötum á mánudaginn en þá ræddum við um eineltishringinn og verndarann sem er grænn á litinn. Allir nemendur skólans stimpluðu handafar á sameiginlegt veggteppi sem hangir nú í setustofu skólans.
Í þessari viku byrjuðum við á þemaverkefni um bíla. Við erum að lesa bókina "Komdu og skoðaðu bílinn" og hafa krakkarnir unnið margvísleg verkefni í tengslum við bíla.
1. bekkur fékk innlögn á stöfunum Úú og Nn.
Í dag, föstudag, var STÁSS tími í umsjón yngsta stigs. Nemendur kynntu þar verkefnið sitt sem heitir "Bílaverksmiðjan" og sýndu þau bílana sem þau hönnuðu sjálf. Krakkarnir stóðu sig mjög vel og var gaman að sjá þau koma fram og sýna afrakstur vinnu sinnar.
Haustgleði undirbúningur er nú í fullum gangi og ganga æfingar vel. Nemendur í 3.- 4. bekk fóru yfir í Ýdali í dag á sína fyrstu æfingu og gekk það mjög vel.
Haustgleði Þingeyjarskóla verður haldin fimmtudaginn 20.11.2025 og hefst skemmtunin kl. 18:00.
Unglingastigið ásamt nemendum úr 3. - 4. bekk setja upp leikritið Kardemommubærinn.
Miðaverð 2000 krónur fyrir fullorðna.
500 krónur fyrir börn á grunnskólaaldri.
Frítt fyrir leikskólabörn og grunnskólanemendur Þingeyjarsveitar.
Sjoppa á staðnum en athugið að enginn posi er til staðar.
Ball eftir sýningu.
Öll velkomin.
Nemendur og starfsfólk Þingeyjarskóla
Nemendur á miðstigi hafa undanfarið unnið spennandi verkefni um galdrafárið á Íslandi á 17. öld. Þar kynntu þau sér tímabil þar sem fólk óttaðist galdra og margir voru sakaðir um að nota rúnir og galdrastafi til að hafa áhrif á aðra.
Þau hafa legið yfir heimasíðu Galdrasýningarinnar á Ströndum og skoðað þar rúnir, galdrastafi og sögur af fólki sem sakað var um galdra.
Einnig hafa þau velt fyrir sér hvernig samfélagið var á þessum tíma – hvernig ótti, trú og fáfræði höfðu áhrif á líf fólks og ákvarðanir þess.
Á ganginum fyrir framan stofuna hafa nemendur sett upp tímalínu yfir allar galdrabrennurnar sem áttu sér stað á Íslandi á 17. öld.
Verkefnið hefur vakið mikinn áhuga og nemendur verið forvitnir, gagnrýnir og skapandi í vinnu sinni.
Við hvetjum alla sem eiga leið í skólann til að labba inn ganginn og skoða tímalínuna á ganginum – þar er margt áhugavert að sjá!