Erasmusverkefni

Þingeyjarskóli tekur nú þátt í þriggja ára Erasmus samstarfsverkefni ásamt skólum frá Danmörku, Portúgal, Tyrklandi, Ítalíu og Kýpur. Í verkefninu sem ber heitið Technology understanding and sustainability in practice cooperation vinna þátttakendur mánaðarleg verkefni þar sem unnið er með tækni og sjálfbærni í skólastarfi auk réttinda barna. Þátttakendur í verkefninu fyrir hönd skólans eru Helga Sigurbjörg, Jóhann Rúnar, Aðalbjörn, Árni Pétur, Hildur Rós og Harpa Þorbjörg. 

Á þeim þremur árum sem verkefnið spannar heimsækja þátttakendur hvern annan þar sem þeir skiptast á að vera gestgjafar. Í maí 2022 hófst verkefnið með heimsókn til Danmerkur og í október sama ár hittist hópurinn í Portúgal. Í mars stendur svo til heimsókn til Kýpur og svo bjóðum við heim í septemberlok á næsta skólaári. Tyrkland býður heim árið 2024 og endar verkefnið á  heimsókn til Ítalíu vorið 2025.

Á veggjum efri hæðar skólans, framan við skrifstofu skólastjóra og kaffistofu starfsfólks, hanga verkefnin sem búið er að vinna og stefnum við á að halda áfram að bæta á veggina jafnóðum og verkefnum fjölgar. Hvetjum við alla sem heimsækja skólann til að kíkja á verkefnin. Eins er hægt að fylgjast með á heimasíðu verkefnisins erasmus.one.