Gagnlegur og gagnvirkur lestur

Nemendur á unglingastigi hafa verið að leggja mikla áherslu á lestur í vetur. Sérstök áhersla hefur verið lögð á skýran og lifandi lestur. Þá hafa lestraræfingar verið með nýju sniði þar sem nemendur taka myndband af lestrinum og setja hann inn á Seesaw. Þannig geta þau sjálft greint lestrarlag sitt auk þess sem nemendur og foreldrar hafa góða yfirsýn yfir lestrarþjálfunina.

Í febrúar fór svo af stað nýtt verkefni á þessu sviði en þá eru nemendur að taka upp hljóðbækur. Fyrirkomulagið er þannig að nemendur fara á bókasafnið og velja sér barnabók til þess að lesa. Þau fara svo í upptökuverið og taka upp myndband af bókinni þegar þau lesa hana upphátt og með innlifun. Hljóðbókin er svo klippt til, sett inn á vefhýsingu og QR-kóði gerður. Kóðinn er svo límdur á bókina og bókinni skilað á bókasafnið. Þetta gerir það að verkum að unglingarnir æfast í lifandi lestri en svo geta aðrir nemendur skólans skannað kóðann á forsíðu bókarinnar og hlustað á hljóðbókina. 

Nú eru fjórar hljóðbækur tilbúnar og munum við halda áfram að taka upp og fjölga þeim. Nemendur yngsta stigs eru á næstunni að fá Ipad-a og þegar þeir eru komnir í gagnið ætla nemendur unglingastigs að kynna fyrir þeim þennan möguleika á bókasafninu.