Hugaríþróttamót Skjálfanda í Ýdölum

Skjálfandi logo

Félagsmiðstöðin Skjálfandi hélt á dögunum sitt fyrsta hugaríþróttamót Þingeyjarskóla þar sem keppt var í hinu geysivinsæla kænskuspili "Magic the gathering". Mótið, sem haldið var í Ýdölum, fór fram með miklum myndarbrag og að lokum gæddu keppendur sér á pizzu í félagsmiðstöðinni. Eftir fjórar keppnisumferðir þar sem krakkarnir söfnuðu stigum fyrir hvern leik sem þau unnu stóð Sigtryggur Karl í 7. bekk uppi sem sigurvegari eftir að hafa unnið alla sína leiki. Keppendur í efstu fjóru sætunum fengu öll sérstök verðlaun en auk þess fengu allir keppendur glaðning í formi nýrra spila með sér heim.


Þátttakendur á magic móti skjálfanda


Félagsmiðstöðin hefur í vetur boðið nemendum í 6.-10. bekk Þingeyjarskóla upp á svokölluð "spilaféló" þar sem eitt þekktasta og vinsælasta kænskuspil síðari tíma, Magic the gathering, var tekið fyrir, stúderað og æft. Fjölmargir nemendur hafa nýtt sér þessar opnanir og í kjölfarið komið sér upp eigin safni af spilum með fjölbreyttum leikstíl.


Magic mót í gangi 2


Reynsla bæði þátttakenda og starfsfólks Skjálfanda af þessari hugaríþrótt hefur verið gríðarlega jákvæð enda hefur sýnt sig að þátttaka eflir félagsleg tengsl, opnar fyrir nýjum áhugamálum og æfir hugann. Spilin innihalda mörg hver nokkuð flókin fyrirmæli sem öll eru á ensku en mjög ánægjulegt hefur verið að fylgjast með nemendum taka sig saman um að lesa, þýða og útskýra fyrir hver öðrum. Krakkarnir mega svo sannarlega vera stolt af sér fyrir hversu vel þeim hefur tekist og það frábæra og íþróttamannslega andrúmsloft sem myndast hefur í kringum spilið. Stórt tækifæri til óformlegs náms sem þau hafa svo sannarlega nýtt sér til fulls. 

 

Magic mót í gangi