Samstarf milli skólastiga - styrkur samrekinna leik- og grunnskóla

Í dag fengu Barnaborg og yngsta stig grunnskólans góða heimsókn frá unglingastigi. Hópur nemenda kom og las barnabók sem þau sömdu. Það er alltaf spennandi fyrir leikskólabörnin þegar unglingarnir koma í heimsókn og þau hlustuðu af áhuga og athygli. Nýja barnabókin er verkefni í náttúrufræði upp úr bókinni Sól, tungl og stjörnur. Fyrst var unglingunum skipt í hópa þar sem hver hópur fékk einn kafla til að einfalda. Markhópurinn var eldri hópur í leikskóla og yngsta stig. Þegar því var lokið var þeim aftur skipt í hópa þar sem þau skiptu með sér verkum eins og að gera auglýsingar og kynningar, bókarkápuna, teikningar og uppsetning. Úr varð falleg, auðskiljanleg bók með grípandi myndskreytingu. Í þessu verkefni fólst markmið um að auka þekkingu unglinga og yngri barnanna í náttúrufræði. Auk þess er verkefnið er liður í því að auka áhuga á bókum og lestri og stuðla að samheldni og skapandi skólastarfi.