Föstudaginn 30. maí voru skólaslit og útskrift Þingeyjarskóla.
Úr grunnskóladeildinni útskrifaðist stór og öflugur hópur, alls 17 nemendur, og af leikskólastiginu útskrifuðust fjórir nemendur sem við hlökkum til að taka á móti í 1. bekk í haust. Nemendum 10. bekkjar óskum við til hamingju með útskriftina og velfarnaðar á lífsins leið.
Á skólaslitunum var tekið í notkun nýtt merki skólans sem er byggt á listaverki Gerðar Foldar Arnardóttur sem var nemandi í Barnaborg. Kristrún Ýr Óskarsdóttir sjónlistakona og kennari við skólann sá um að útfæra og vinna merkið út frá listaverkinu. Nýja merki skólans minnir okkur á náttúruna og hversu dýrmæt tengslin við hana eru fyrir allt skólastarf Þingeyjarskóla. Þá er merkið einnig áminning um mikilvægi þess að virkja sköpunarkraftinn sem býr í hverju barni og leyfa hæfileikum hvers og eins að njóta sín.