Stóra upplestrarkeppnin

Í fyrstu umferð voru lesnar svipmyndir úr skáldsögunni Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. Í annarri umferð voru lesin ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk En í þriðju og síðustu umferð fengu lesarar val um hvaða ljóð þeir vildu flytja. Nemandi Grunnskólans á Þórshöfn flutti tónlistaratriði og Trevis Rayn, sem er nemandi í sjöunda bekk Borgarhólsskóla, flutti ljóð á móðurmáli sínu svahili.

Í fyrsta sæti var Elísabet Ingvarsdóttir úr Borgarhólsskóla, í öðru sæti var Alexandra Ósk Hermóðsdóttir úr Þingeyjarskóla og þriðja sæti skipaði Brynja Rós Brynjarsdóttir úr Borgarhólsskóla

Stóra upplestrarkeppnin er nú á 25. aldursári en samtökin Raddir hafa haft veg og vanda að þessari keppni frá upphafi. Ingibjörg Einarsdóttir, formaður samtakanna hefur árlega komið í Þingeyjarsýslu frá því að skólar hér á svæðinu hófu þátttöku í keppninni eða í rúmlega 20 ár. Var henni færð gjöf af þessu tilefni,  En samtökin Raddir hyggjast nú hleypa barninu að heiman og taka sveitarfélögin vonandi við keppninni.