Kæru foreldrar og forráðamenn,
Því miður seinkar skólabyrjun grunnskóla- og tónlistardeildar Þingeyjarskóla til mánudagsins 25. ágúst. Samkvæmt skóladagatali átti skólastarf að hefjast föstudaginn 22. ágúst.
Við munum þó setja skólann á morgun, fimmtudaginn 21. ágúst, kl. 16:30 í Ýdölum. Þar hittumst við í salnum, kynnum starf vetrarins og veitum hagnýtar upplýsingar. Að lokinni skólasetningu fara nemendur heim með foreldrum sínum. Kennsla hefst svo mánudaginn 25. ágúst á hefðbundnum skólatíma (kl. 8:15).
Ástæðan fyrir seinkuninni er sú að ekki náðist að ljúka framkvæmdum á húsnæði skólans í vikunni. Unnið er að endurbótum á snyrtingum nemenda, lagningu dúks á milligangi og fleiri umbótum sem tengjast anddyri og fatahengi. Þetta hefur í för með sér ryk, óþrif og rask sem gerir okkur erfitt um vik að hefja hefðbundið skólastarf samkvæmt stundaskrá. Einnig er er unnið að umbótum á búningsaðstöðu í Ýdölum. Framkvæmdirnar eru á lokametrunum og ættu ekki að trufla skólastarf að ráði eftir helgina.
Við biðjumst velvirðingar á þessari seinkun og stuttum fyrirvara en vonum að þið sýnið því skilning að framkvæmdirnar eru nauðsynlegar til að bæta aðstöðu nemenda og starfsfólks til framtíðar.
Við hlökkum til að hefja skólaveturinn með ykkur og börnunum ykkar.
Með bestu kveðju,
Jóhann Rúnar
skólastjóri