Þann 23. september barst Þingeyjarskóla fyrirspurn frá Sigurlínu Tryggvadóttur, verkefnastjóra Huldu náttúruhugvísindaseturs, um mögulegt samstarf við umhverfisverkefni sem Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Þingeyjarsveit stendur fyrir. Verkefnið tengist dvöl listamannsins Hrafnkels Sigurðssonar í Mývatnssveit dagana 14.–20. nóvember, þar sem hann vann að listaverki sem er hluti af sýningunni Creative Responses í Listasafni Akureyrar. Hrafnkell dvaldi í listamannabústað á Skútustöðum og vann þar að skúlptúr úr efni sem hann safnaði úr nærumhverfinu. Í tengslum við dvölina óskaði hann eftir að tengjast samfélaginu og varð samstarf við Þingeyjarskóla til í kjölfarið.
Sjónlistakennari Þingeyjarskóla, Kristrún Ýr Óskarsdóttir var einmitt að kenna valáfangann „Skúlptúrgerð“ þegar fyrirspurnin barst. Áfangann sækja sex nemendur sem tóku strax vel í hugmyndina og hófu undirbúning. Nemendur fengu fræðslu um fjölbreytt listafólk og efnivið, og unnum við með plöntuna fjallagrös sem þema, en þemað kom frá Hrafnkeli. Þau rannsökuðu form og eiginleika plöntunnar, gerðu skissur, meðal annars stórar skissur í líkamsstærð, og þróuðu út frá þeim hugmyndir að eigin skúlptúrum. Að því loknu hófu þau söfnun á rusli úr nærumhverfinu og heiman að, sem nota átti í skúlptúrana. Nemendur fengu aðstoð frá starfsfólki skólans og fjölskyldum sínum í ruslasöfnuninni og eitt foreldri úr nemendahópnum kom með heila kerru af efnivið sem kom sér afar vel í vinnunni.
Hrafnkell heimsótti nemendur föstudaginn 14. nóvember og fylgdist með þeim vinna að verkunum. Hann var afar hrifinn af hugmyndaflugi og vinnusemi þeirra. Dagana 22. -23. nóvember heimsóttu nemendur hann síðan á Skútustaði, þar sem þau kláruðu skúlptúrana með aðstoð fleiri aðila (Hrafnkell, Láki á Skútustöðum, Sigurlína og Georgia frá HULDU, Gaza sem tók heimildamyndina) sem komu til liðs við verkefnið.
Einnig má geta þess að það var tekin upp heimildarmynd um sköpunarferli listamannsins Hrafnkels sem að unglingarnir tóku þátt í líka.
Samstarfið gekk afar vel og eru bæði nemendur og kennari þakklát fyrir stuðning, aðstoð og áhuga allra sem komu að verkefninu. Kristrún kennari krakkanna sagði m.a. Ég gæti ekki verið ánægðari með þennan frábæra hóp af listafólki sem á framtíðina fyrir sér í alls kyns sköpunarverkum. Ég er að springa úr stolti, því það tekur sérstakan kjark að ráðast í svona mikið verkefni, á sama tíma og krakkarnir æfðu baki brotnu fyrir leiksýninguna á sama tíma þar sem allt gekk að óskum. Ég er fullviss um að þau lærðu heilan helling á þessu verkefni og munu lengi búa að reynslunni sem þau öðluðust þessar vikur sem við unnum að verkefninu.
Nemendur eru:
Bjartur Ingi Gunnarsson
Ellý Hjaltalín Hayhurst
Hildur Ósk Gunnarsdóttir
Hrefna Bragadóttir
Noah Hjaltalín Hayhurst
Þór Sæmundsson
Inni á heimasíðu Þingeyjarsveitar er frétt um þetta verkefni.
Verk eftir nemendur í Þingeyjarskóla á Listasafninu á Akureyri | Þingeyjarsveit