Fréttir

Galdrafárið á Íslandi

Nemendur á miðstigi hafa undanfarið unnið spennandi verkefni um galdrafárið á Íslandi á 17. öld. Þar kynntu þau sér tímabil þar sem fólk óttaðist galdra og margir voru sakaðir um að nota rúnir og galdrastafi til að hafa áhrif á aðra. Þau hafa legið yfir heimasíðu Galdrasýningarinnar á Ströndum og skoðað þar rúnir, galdrastafi og sögur af fólki sem sakað var um galdra. Einnig hafa þau velt fyrir sér hvernig samfélagið var á þessum tíma – hvernig ótti, trú og fáfræði höfðu áhrif á líf fólks og ákvarðanir þess. Á ganginum fyrir framan stofuna hafa nemendur sett upp tímalínu yfir allar galdrabrennurnar sem áttu sér stað á Íslandi á 17. öld. Verkefnið hefur vakið mikinn áhuga og nemendur verið forvitnir, gagnrýnir og skapandi í vinnu sinni. Við hvetjum alla sem eiga leið í skólann til að labba inn ganginn og skoða tímalínuna á ganginum – þar er margt áhugavert að sjá!